Beint í efni

Upplýsingar um gang kjaraviðræðna

Kæri félagi,

Enn er unnið að endurskoðun og framlengingu kjarasamninga. Félag háskólamenntaðra starfsmanna stjórnarráðsins hefur fundað reglubundið með opinberum laungreiðendum að undanförnu. Ásamt því að vinna að úrlausn ýmissa mála hefur félagið einkum sett í forgrunn að þátttaka okkar í sameiginlegri vegferð í átt að efnahagsbata verði ekki náð fram með áframhaldandi skattheimtu og gjaldtöku hjá háskólamenntuðum og frekari rýrnun kaupmáttar þeirra samanborið við aðra hópa.

Ekki verður lengra komist með samskonar samningsgerð og einkennt hefur samninga undafarinna ára. Þar hefur markið verið sett á hófstilltar launahækkanir sem miða að því að hækka laun ómenntaðra á meðan síaukin gjald- og skattheimta og síhækkandi byrði vegna húsnæðis- og námslána hefur vegið umfram aðra hópa að fjárhagslegu bolmagni háskólamenntaðra á vinnumarkaði og þar með að virði háskólamenntunnar. Fjögurra ára samningur án sérstakra úrbóta hvað þetta varðar yrði afleit niðurstaða hvað varðar gildi háskólamenntunnar og kjör okkar hópa.

Að undaförnu hefur félagið haldið fast við sýnar kröfur og viðrað hugmyndir sem að taldar eru líklegar til að leiða til lausnar í kjaradeilunni. Ríkið er nú að skoða þær. Þess utan vinnur félagið áfram náið með öðrum háskólafélögum innan sem utan BHM að lausn afmarkaðra mála er varða hækkun launa, kjarabætur, rýmkun réttinda eða bættar starfsaðstæður okkar félaga.

Kjarasamningavinnan er flókin og um langa samninga er að ræða. Viðræður ganga hægt. Þolinmæði stéttarfélaga háskólafólks á sér þó takmörk og hætt er við að frekari tafir við gerð kjarasamninga muni leiða til þess að stéttarfélög taki í ríkum mæli að nýta sér fær úrræði sem fallin eru til þess að stuðla að úrlausn samninga.

Stéttarfélag lögfræðinga er þó, eins og sakir standa, í virku samtali um breytingar á fjölda þátta kjarasamninga og úrbætur í stofnanasamningum og bindur enn vonir við að árangur náist eftir hefðundnum leiðum, með samkomulagi aðila. Dragist viðræður enn á langinn má þó reikna með að félagið fylgi í fótspor annara og leiti færra leiða til lausna.

Stjórn og samninganefnd félagsins hyggst senda ykkur spurningakönnun á næstum dögum þar sem hugur félaga verður kannaður til ákveðinna atriða og áherslumála tengdum vinnslu kjarasamninga.

En sem fyrr biðlum við til okkar félaga að hafa samband við okkur með spurningar í síma 595-5143, eða með tölvupósti til fhss@fhss.is, hvort sem þær tengjast kjarasamningsviðræðum, einstaklingsmálum, ráðgjöf eða hvaðeina sem snýr að málefnum félagsins. Öll tækifæri til að heyra raddir félagsfólks skipta félagið sköpum í kjarabaráttunni!

Virðingarfyllst,

Stjórn FHSS