Beint í efni

Umsögn FHSS til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis

Þann 13. janúar 2025 barst Félagi háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins (FHSS) umsagnarbeiðni frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis varðandi tillögu til þingsályktunar um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

Með umræddri þingsályktunartillögu forsætisráðherra er leitað eftir stuðningi Alþingis við fyrirhugaða breytingu á heiti og fjölda ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Fyrirhuguð fækkun ráðuneyta og breyting á heitum þeirra er hluti afbreytingum á skipulagi Stjórnarráðs Íslands sem kynntar voru í tengslum við myndun nýrrar ríkisstjórnar í lok desember sl.

Innan Stjórnarráðsins er að finna gífurlega þekkingu og reynslu af stefnumörkun og stefnumótun. Má það að vissu leyti rekja til þess að á undanförnum árum hefur markvisst verið unnið að því að innleiða trausta og vandaða þekkingu á þeim sviðum hjá sérfræðingum Stjórnarráðsins, m.a. með námskeiðum á vegum Stjórnarráðsskólans. FHSS er ekki kunnugt um að þessi þekking sérfræðinga Stjórnarráðsins hafi verið nýtt sem skyldi í undirbúningi þeirra breytinga á skipan ráðuneyta sem nú stendur til að festa í sessi. FHSS bendir á mikilvægi þess að nefndin beini því til forsætisráðuneytisins að viðhaft verði fullnægjandi samráð við sérfræðinga Stjórnarráðsins um innleiðingu fyrirhugaðra breytinga.

Þá leggur FHSS ríka áherslu á að við innleiðingu fyrirhugaðra breytinga verði gætt að lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, kjarasamningum og stofnanasamningum og tryggt verði að enginn sérfræðingur Stjórnarráðsins beri skarðan hlut frá borði í kjölfar breytinganna.