Verklagsreglur stjórnar FHSS

1. gr.

Starfsemi

Tilgangur Félags háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins (FHSS) er að vinna að bættum kjörum félagsmanna og gæta hagsmuna þeirra í kjara- og réttindamálum. Félagið starfar innan vébanda BHM og heldur úti þjónustuskrifstofu (FFSS) í félagi við önnur stéttarfélög.

Starfsmenn þjónustuskrifstofunnar annast þjónustu við félagsmenn enda greiðir FHSS rekstrarkostnað skrifstofunnar ásamt öðrum aðilum að skrifstofunni, í hlutfalli við heildarfjölda félagsmanna hverju sinni eða annars eftir því sem um semst.

2. gr.

Skipan stjórnar

Stjórn FHSS er kosin á aðalfundi félagsins eins og greinir í 4. gr. laga félagsins. Formaður er kosinn á aðalfundi en stjórnarmenn skipta sjálfir með sér öðrum verkum.

Vari forföll stjórnarmanns lengur en tvo mánuði samfellt skal skipa varamann stjórnar í hans stað, nema gildar ástæður séu fyrir forföllunum. Þóknun vegna stjórnarvinnu skal í slíku tilviki greiðast varamanni. Stjórn er heimilt að kalla til varamann þó forföll vari í skemmri tíma telji hún þörf á slíku.

3. gr.

Verksvið stjórnar

Stjórn FHSS ræður málefnum félagsins í samræmi við lög félagsins. Hún tekur ákvarðanir um starfsemi þess og ber ábyrgð á fjárreiðum þess. Hún skuldbindur félagið gagnvart öðrum aðilum.

Formaður FHSS situr fyrir hönd félagsins í formannaráði BHM og í stjórn þjónustuskrifstofunnar. Stjórn tilnefnir einn varafulltrúa úr sínum röðum til setu í formannaráði BHM. Stjórn tekur ákvörðun um tilnefningu fulltrúa í nefndir og til annarra starfa á vegum félagsins.

Fundargerðir skulu ávallt færðar af ritara stjórnar eða umboðsmanni hans.

Stjórnarmenn skulu haga störfum sínum í einu og öllu með hagsmuni félagsmanna að leiðarljósi.

4. gr.

Fyrirsvar stjórnar

Formaður FHSS er málsvari stéttarfélagsins og kemur fram fyrir hönd þess varðandi málefni þess nema stjórnin ákveði annað.

5. gr.

Boðun funda o.fl.

Stjórnarfundir skulu að jafnaði haldnir einu sinni í mánuði. Auk þess skal halda stjórnarfund ef formaður FHSS, aðrir stjórnarmenn eða framkvæmdastjóri þjónustuskrifstofunnar telja slíkt nauðsynlegt.

Til stjórnarfundar skal boða með minnst tveggja daga fyrirvara. Stjórnarformaður getur þó ákveðið annan frest telji hann það óhjákvæmilegt vegna sérstakra aðstæðna. Fundarboð skal að jafnaði vera rafrænt.

Stjórnarmaður sem ekki kemst á boðaðan stjórnarfund skal tilkynna það til formanns svo tímanlega sem honum er það unnt.

Formaður stýrir stjórnarfundum.

6. gr.

Ákvörðunarvald. atkvæðagreiðslur o.fl.

Stjórn getur tekið bindandi ákvarðanir þegar meirihluti stjórnar sækir fund enda hafi fundurinn verið boðaður í samræmi við þessar verklagsreglur, sbr. 6. gr. laga félagsins. Meiriháttar ákvörðun skal þó ekki taka án þess að allir stjórnarmenn hafi haft tök á því að fjalla um málið sé þess kostur.

Einfaldur meirihluti ræður úrslitum á stjórnarfundum í öllum málum. Falli atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns.

Óski stjórnarmaður eftir frestun afgreiðslu máls til næsta fundar skal orðið við slíkri beiðni enda bjóði brýnir hagsmunir félagsins ekki annað.

Stjórnarmaður er eingöngu bundinn af sannfæringu sinni en ekki fyrirmælum þeirra sem hafa kosið hann.

Stjórnarmenn skulu snúa sér til formanns með óskir um að tekin verði á dagskrá stjórnarfunda einstök mál.

7. gr.

Fundargerðir

Ritari stjórnar eða sá sem gegnir störfum ritara í forföllum hans, skal skrá fundargerð um það sem gerist á stjórnarfundum. Fundargerðir skulu sendar út eftir stjórnarfundi til allra stjórnarmanna og þeirra varamanna sem setið hafa viðkomandi fund, ef því er við komið. Í fundargerð skal skrá eftirfarandi:

a) Hvar og hvenær fundurinn er haldinn.

b) Hverjir sitja fundinn og hver ritar fundargerð.

e) Dagskráratriði samkvæmt fundarboðun og stutta lýsingu á dagskrárliðum.

d) Ákvarðanir sem teknar eru og atkvæðagreiðslur ef til þeirra kemur.

e) Upphaf og lok fundartíma.

Stjórnarmenn sem ekki eru sammála ákvörðun stjórnar eiga rétt á að fá sérálit sitt skráð í fundargerð.

Í upphafi stjórnarfundar skal fundargerð næsta stjórnarfundar á undan borin upp til samþykktar. Hafi varamaður stjórnar setið stjórnarfund skal ritari vera búinn að fá staðfestingu hans fyrir samþykkt fundargerðar áður en næsti stjórnarfundur er haldinn.

Leitast skal við að birta samþykktar fundargerðir stjórnar sem fyrst á heimasíðu félagsins.

8. gr.

Þagnar– og trúnaðarskylda

Á stjórnarmönnum hvílir þagnarskylda um málefni FHSS og önnur atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu sem stjórnarmenn og leynt skulu fara samkvæmt lögum, eðli máls eða ákvörðun stjórnarinnar.

Stjórnarmaður er ábyrgur fyrir því að gögn sem hann hefur tekið við og fara skuli leynt, komist ekki í hendur annarra aðila.

Þagnarskylda helst þó stjórnarmaður FHSS hætti í stjórn með eðlilegum hætti á aðalfundi eða segi sig úr stjórn á milli aðalfunda.

9. gr.

Hæfi til meðferðar einstakra mála

Stjórnarmönnum FHSS er ekki leyfilegt að taka þátt í meðferð mála sem varða þá persónulega, fjárhagslega eða valdið geta hagsmunaárekstrum. Skylt er stjórnarmanni að gæta að hæfi sínu og upplýsa um slík tilvik.

Stjórnarmaður skal tilkynna stjórninni fyrir fram ef aðstæður eru fyrir hendi í máli sem valda vanhæfni eða gætu gefið tilefni til efasemda um hæfi hans. Stjórnin tekur í kjölfarið ákvörðun um hvort viðkomandi stjórnarmaður skuli víkja sæti á meðan á meðferð málsins stendur. Stjórnarmaðurinn sem efasemdir um hæfi varðar tekur ekki þátt í umræðu eða ákvörðun þar um.

Stjórnarmenn mega ekki gera neinar þær ráðstafanir sem bersýnilega eru til þess fallnar að afla ákveðnum félagsmönnum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna umfram aðra aðila eða á kostnað félagsins.

10. gr.

Breytingar á verklagsreglum stjórnar

Einungis stjórn FHSS getur gert breytingar á verklagsreglum þessum. Til breytinga á reglunum þarf samþykki allra stjórnarmanna.

11. gr.

Meðferð verklagsreglna

Þeir sem sæti eiga í stjórn félagsins við setningu verklagsreglna þessara skulu undirrita frumrit reglnanna. Ef stjórnin samþykkir breytingar á reglunum skulu stjórnarmenn undirrita frumrit afþeim svo breyttum.

Nýjum stjórnarmönnum FHSS og framkvæmdastjóra þjónustuskrifstofunnar skulu kynntar verklagsreglurnar.

Verklagsreglur þessar, settar með heimild í 7. mgr. 6. gr. laga félagsins, eru hér með samþykktar til birtingar á heimasíðu félagsins.

Stjórn FHSS 7. febrúar 2019.

Verklagsreglur PDF

FRÁ 2018
FRÁ 2013
Reglur fyrir félagslega skoðunarmenn FHSS
Verklagsreglur vegna ársreikning og reikninga félagsins
Scroll to top