Kallarðu þetta jafnrétti?
Boðað er til kvennaverkfalls þriðjudaginn 24. október 2023
Slagorðið í ár er: Kallarðu þetta jafnrétti?
Boðað var til fjölmiðlafundar í Höfuðstöðinni þriðjudaginn 3. október til þess að tilkynna um fyrirhugað verkfall. Fulltrúar á fjórða tug samtaka kvenna, launafólks og hinsegin fólks kynnti aðgerðirnar. Lesnar voru upp staðreyndir um m.a. vanmat á störfum kvenna, ofbeldi gegn konum og kynsegin fólki, ofbeldi gegn fötluðum konum og stöðu kvenna og kvára í samtímanum. Þá voru konur og kynsegin fólk hvatt til að leggja niður launuð sem ólaunuð störf allan þriðjudaginn 24. október 2023.
Samstaða er sterkasta vopnið
Kvennafrídagurinn var fyrst haldinn 24. október árið 1975 á kvennaári Sameinuðu þjóðanna. Þann dag lögðu 90% kvenna um land allt niður störf til að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags kvenna fyrir þjóðfélagið. Þær vildu mótmæla og vekja athygli á launamisrétti, vanmati á störfum kvenna, skorti á virðingu og valdaleysi kvenna. Hjól atvinnulífsins og reyndar þjóðlífsins alls nánast stöðvuðust þennan dag. Fundurinn vakti athygli um allan heim og sýndi að samstaða er sterkasta vopnið.
Kerfisbundið vanmat á störfum kvenna og ofbeldi
Þótt mikið hafi áunnist frá árinu 1975 hefur ekki verið orðið við megin kröfu Kvennafrís: Að störf kvenna séu metin að verðleikum. Atvinnutekjur kvenna eru enn 21% lægri en karla og hefðbundin kvennastörf eru talsvert verr launuð en karlastörf. Konur sem starfa við ræstingar, umönnun og menntun barna, þjónustu við veikt fólk, fólks með fötlun og aldraðra eru á einna lægstu launum í íslensku samfélagi. Þá birtist kerfisbundið misrétti í því að 40% kvenna hafa orðið fyrir kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi, að trans fólk, þ.m.t. kvár, konur með fötlun og konur af erlendum uppruna verða fyrir meira ofbeldi en aðrir hópar.
Því blása á fjórða tug samtaka kvenna, hinsegin fólks og launafólks til heils dags Kvennaverkfalls 24. október næstkomandi.
Við hvetjum konur og kvár í nærsveitum Reykjavíkur, svo sem Borgarfirði, Akranesi, Selfossi og af Suðurnesjum til að gera sér glaðan dag, fylkja liði og mæta á samstöðufundinn á Arnarhóli kl. 14:00.
Samstöðufundir verða einnig haldnir um allt land, frekari upplýsingar um þá verður að finna á http://kvennaverkfall.is. Þau sem ekki sjá sér fært að mæta á samstöðufundi eru hvött til að sýna samstöðu með öðrum hætti undir myllumerkinu #kvennaverkfall.
Karlar taki boltann
Karlar eru hvattir til að sýna konum og kvárum stuðning í baráttunni fyrir jöfnum kjörum og gera þeim kleift að taka þátt í viðburðum dagsins. Þeir gera það til dæmis með því að taka aukavaktir í vinnunni fyrir þær og þau sem taka þátt í verkfallinu og/eða með því að því sjá um barnaumönnun, veika ættingja og heimilisstörf þennan dag.
Aðstandendur kvennaverkfallsins eru:
- Aflið (Akureyri)
- Alþýðusamband Íslands
- Bandalag kvenna í Reykjavík
- BHM - Bandalag háskólamanna
- BSRB
- Druslugangan
- Druslubækur og Doðrantar
- Delta Kappa Gamma, félag kvenna í fræðslustörfum
- Femínísk fjármál
- Femínistafélag HÍ
- Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga
- Félag um Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna á Íslandi
- Hagsmunasamtök knattspyrnukvenna
- IceFemin
- Kennarasamband Íslands
- Knúz.is
- Kvenfélagasamband Íslands
- Kvennahreyfing ÖBÍ
- Kvennaráðgjöfin
- Kvennasögusafn Íslands
- Kvenréttindafélag Íslands
- Rótin
- Samtök um kvennaathvarf
- SSF - Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja
- Samtökin '78
- Soroptimistasamband Íslands
- Stígamót
- UN Women Ísland
- Ungar athafnakonur
- WIFT – Konur í kvikmyndum og sjónvarpi
- W.O.M.E.N. in Iceland – Samtök kvenna af erlendum uppruna á Íslandi
- Q - félag hinsegin stúdenta