Fundargerð stjórnar FHSS 28. mars 2018

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar FHSS, miðvikudaginn 28. mars 2018

Fundartími: kl. 12-13:30
Fundarstaður: Fundarherbergi 2.hæð, Borgartúni 6
Mættir: Herdís Helga Schopka (HHS), Ólafur Egill Jónsson (ÓEJ), Ragnheiður Bóasdóttir (RB), Steinar Örn Steinarsson (SÖS) og Steinunn Valdís Óskarsdóttir (SVÓ).
Fundarritari: RB

1. Fundargerðir síðustu tveggja stjórnarfunda (8. febrúar og 8. mars 2018)

Fundargerðirnar höfðu þegar verið samþykktar í tölvupóstsamskiptum stjórnar.

2. Stjórn skiptir með sér verkum

Stjórn skipti með sér verkum og er svo skipuð:

 • Ragnheiður Bóasdóttir, formaður
 • Ólafur Egill Jónsson, varaformaður
 • Steinunn Valdís Óskarsdóttir, gjaldkeri
 • Steinar Örn Steinarsson, ritari
 • Herdís Helga Schopka, vefstjóri

3. Ákvörðun um boðun stjórnarfunda

Stjórn ákvað dagsetningar næstu þriggja stjórnarfunda, fram að sumarleyfi.

4. Umræður um aðalfund og helstu málefni fram undan

Fundargerð aðalfundar verður send stjórn til yfirlestrar í dag. Ákvarðanir um lagabreytingar, lækkun félagsgjalda og tilkynning um nýskipaða stjórn verða birtar í einni frétt á heimasíðu félagsins. HHS tekur að sér að skrifa fréttina, færa inn lagabreytinguna og setja á vefinn. Helstu málefni fram undan voru tekin fyrir undir liðnum önnur mál.

5. Önnur mál

 1. Ákveðið að HHS fái Hjalta Einarsson á þjónustuskrifstofu til liðs við sig um að gera þarfagreiningu á því hvað skuli vera á heimasíðu félagsins og hvernig félagsfólk sér fyrir sér bestu nýtingu á síðunni. Í kjölfarið verður farið í endurvinnslu síðunnar.
 2. Ákveðið að stjórnarfólk lesi yfir verklagsreglur stjórnar, geri athugasemdir og á næsta fundi stjórnar verði gerðar nauðsynlegar breytingar.
 3. Rætt um námstefnu í samningagerð sem haldin verður annars vegar í maí nk. og hins vegar í október nk. HHS, ÓEJ og SÖS fara í maí en RB og SVÓ í október. Þjónustuskrifstofan ber kostnað af námstefnunni fyrir stjórn.
 4. RB sagði frá erindi sem barst frá Guðnýju Elísabetu Ingadóttur hjá dómsmálaráðuneytinu, fulltrúa í nefnd um jafnlaunavottun í Stjórnarráðinu. Þar er ráðlagt að FHSS taki mið af þeirri vinnu þegar teknar verða ákvarðanir um ráðstöfun fjár sem fylgir Bókun 6 í samkomulagi um framlengingu og breytingu á kjarasamningi sem undirritað var 5. febrúar sl. Stjórn mun halda þessu til haga þegar hafist verður handa við að ræða útfærslu á þeirri bókun.
 5. Ákveðið var að SÖS færi á ársfund Styrktarsjóðs BHM, fyrir hönd stjórnar. Fundurinn verður haldinn miðvikudaginn 11. apríl nk. kl. 15.
 6. Rætt var um námsferð félaga og starfsfólks þjónustuskrifstofunnar sem farin verður 21. – 26. maí nk. til Oslóar og Luxemborgar. RB og SVÓ fara fyrir hönd FHSS og greiðir þjónustuskrifstofan kostnað af ferðinni.
 7. Ákveðið var að SVÓ lagi til orðalag í reglum um þóknanir til stjórnar, trúnaðarmanna og skoðunarmanna þar sem að í umfjöllun um málið á aðalfundi félagsins kom í ljós að misskilja mætti orðalag í textanum. Stjórnin ræddi um ábendingu frá skoðunarmönnum að færa allar slíkar greiðslur inn sem launagreiðslur. Verði stjórn við þeim ábendingum mun þurfa að hækka greiðslur svo ekki verði um skerðingu að ræða á kjörum. Slíka ákvörðun þarf að leggja fyrir aðalfund til ákvörðunar og verður málið rætt frekar í tæka tíð fyrir aðalfund 2019.
 8. ÓEJ vakti máls á því að félagið væri ekki virkt í að álykta um mál sem ástæða gæti verið til að félagið tjáði sig um. Stjórn var sammála um að ræða þetta nánar og ákveða verklag ef tilefni gefst til.
Scroll to top