Fundargerð stjórnar FHSS 11. júní 2020

Stjórnarfundur FHSS, fimmtudaginn 11. júní 2020 

Fundartími: kl. 11:30 – 13:00.
Fundarstaður: Fundarherbergi þjónustuskrifstofu, Borgartúni 6.
Mætt: Ragnheiður Bóasdóttir (RB) formaður, Steinar Örn Steinarsson (SÖS) varaformaður, Kristján Eiríksson (KE) gjaldkeri, Jóhanna Norðdahl (JN) varamaður og Sigurður Þór Baldvinsson (SÞB) varamaður.
Fundarritari: SÞB.

1.Fjármál félagsins 
Fundað var með Arion banka um leiðir til að ávaxta betur peningalega eign félagsins. Sjóðurinn er til kominn af því að farið var varlega í að lækka félagsgjöld eftir að búið var að greiða kostnað við þátttöku í verkfalli. Einnig hækkuðu framlög við það að skrifstofustjórar og sendiherrar byrjuðu að greiða til félagsins eftir að Kjararáð var lagt niður.

Lagt er til að setja 25 milljónir í fjárvörslu hjá bankanum. Valin verði leið sem leggur meiri áherslu á öryggi en ávöxtun, þó með nokkuð trygga ávöxtun umfram verðbólgu. A sjóður hjá Arion banka kom helst til greina.

2. Undirbúningur aðalfundar 
Aðalfundur verður haldinn 17. september, í hádeginu 11:30 – 13:00. Endurskoðendur hafa yfirfarið ársreikning. Rætt um möguleika á að flytja fundinn í stærra fundarrými með stuttum fyrirvara, ef líkur eru á að fjöldi fundarmanna fari yfir mörk á samkomutakmörkunum. Einnig rætt um möguleika á að hafa fundarstörf rafræn í hluta eða heild. Stefnt að því að halda fundinn með venjulegum hætti.

3. Stytting vinnuviku 
Þau 5 aðildarfélög BHM sem standa að þjónustuskrifstofunni sendu bréf til allra ríkisstofnana sem starfsmenn í þeirra röðum vinna hjá til að ýta á eftir að vinna við að ákveða fyrirkomulag styttingar vinnuviku færi í gang. Gert er ráð fyrir að félagsmenn verði upplýstir um bréfið í framhaldinu. Kjara- og mannauðssýsla hefur sent forstöðumönnum stofnana erindi til að ýta úr vör vinnu.

Stýrihópur, innleiðingarhópur um dagvinnu, innleiðingarhópur um vaktavinnu og matshópur vegna styttingar vinnuvikunnar hafa verið stofnaðir af aðildarfélögum BHM.

4. Önnur mál 
Rætt um kynningu FHSS á umsögn um frumvarp um breytingu á lögum um utanríkisþjónustuna.

Fleira var ekki til umræðu á fundinum, sem lauk kl. 13:00.

Scroll to top