Aðalfundur FHSS 2020 – fundargerð

Aðalfundur FHSS, fimmtudaginn 17. september 2020 

Fundartími: kl. 11:30 – 13:00.
Fundarstaður: Fundarsalir BHM 4. hæð, Borgartúni 6.

Fundinum hafði verið frestað frá venjulegum fundartíma að vori vegna Covid19 faraldurs. Til hans hafði verið boðað með eftirfarandi dagskrá:

  1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
  2. Skýrsla stjórnar frá liðnu starfsári
  3. Ársreikningar félagsins til samþykktar
  4. Lagabreytingar
  5. Ákvörðun um félagsgjald og þóknanir fyrir stjórnar- og nefndarstörf
  6. Kosning stjórnar og skoðunarmanns reikninga
  7. Önnur mál

Ragnheiður Bóasdóttir, formaður, setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna

1.Kosning fundarstjóra og fundarritara
Halldór K. Valdimarsson, á þjónustuskrifstofu var kosinn fundarstjóri og Sigurður Þór Baldvinsson, fundarritari.

2. Skýrsla stjórnar frá liðnu starfsári.
Ársskýrsla lá frammi á fundinum. Formaður stiklaði á stóru um starf undanfarins starfsárs.

3. Ársreikningar félagsins til samþykktar
Reikningar lágu frammi á fundinum. Gjaldkeri fór yfir helstu atriði í þeim.

Að lokinni kynningu skýrslu og reikninga var mælendaskrá opnuð fyrir umræður. Reikningar voru samþykktir án athugasemda.

4. Lagabreytingar
Engar tillögur lágu fyrir fundinum um breytingar á lögum þess.

5. Ákvörðun um félagsgjald og þóknanir fyrir stjórnar- og nefndarstörf
Engin tillaga var lögð fyrir fundinn um breytingar á gjöldum.

6. Kosning stjórnar og skoðunarmanna reikninga
a. Formannskjör:
Frambjóðendur, Friðrik Jónsson, utanríkisráðuneyti og Kristín Einarsdóttir, dómsmálaráðuneyti, kynntu sig í stafrófsröð. Kjörseðlum hafði verið dreift undir öðrum dagskrárliðum. Fundarmenn kusu með því að skrifa nafn á seðilinn og skila í kjörkassa. Atkvæði féllu þannig: Friðrik Jónsson 37. Kristín Einarsdóttir 23.
b. Kosning stjórnarmanna
Steinar Örn Steinarsson og Herdís Helga Schopka buðu sig fram til áframhaldandi stjórnarstarfa og voru kosin með lófataki.
c. Kosning stjórnarmanns til eins árs
Þar sem einn stjórnarmaður hafði gengið úr félaginu á starfsárinu var kosið í stöðu eins stjórnarmanns til eins árs. Kristín Arnórsdóttir frá Hagstofu var kjörin með lófataki.
d. Kosning skoðunarmanns til tveggja ára
Ólöf Kristjánsdóttir gaf kost á sér í nýtt kjörtímabil og var réttkjörin.
e. Kosning varamanns í stjórn
Í varastjórn var eitt sæti laust til tveggja ára. Benedikt Hallgrímsson í fjármálaráðuneyti bauð sig fram á fundinum og var kosinn með lófataki.

7. Önnur mál
(Tekin fyrir á meðan atkvæði í formannskjöri voru talin).
a. Fram kom hvatning til stjórnar að félagsgjöld yrðu lækkuð í ljósi góðrar stöðu félagsins eins og hún kemur fram í ársreikningi.
b. Borin var upp til atkvæða tillaga sem stjórn barst fyrir fundinn, svohljóðandi:
Aðalfundur Félags háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins, haldinn fimmtudaginn 17. september 2020, felur stjórn félagsins að skoða hvort æskilegt sé að gera breytingar á lögum félagsins með það að leiðarljósi að hægt verði að framkvæma kosningar til trúnaðarstarfa á vegum félagsins með rafrænum hætti. Einnig verði í þeirri vinnu skoðað hvort æskilegt sé að félagið geti haldið rafræna aðalfundi. Stjórn kynni niðurstöðu sína fyrir félagsmönnum og leggi fyrir aðalfund 2021 tillögu að breytingum á lögum verði það niðurstaða skoðunarinnar.
Tillagan var samþykkt samhljóða.

Að loknum aðalfundarstörfum var fráfarandi formaður leystur út með gjöfum og sleit að því loknu fundi.

Scroll to top