Aðalfundur FHSS 2019 – fundargerð

Aðalfundur FHSS 20. mars 2019
Borgartúni 6, 105 Reykjavík.
Fundargerð

Aðalfundur FHSS hófst kl. 11.35 en til hans hafði verið boðað með eftirfarandi dagskrá:

1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
2. Skýrsla stjórnar um félagsstarfið á liðnu starfsári.
3. Ársreikningar félagsins lagðir fram til samþykktar.
4. Ákvörðun um félagsgjald og þóknanir fyrir stjórnar- og nefndarstörf.
5. Lagabreytingar.
6. Kosning stjórnar og skoðunarmanna reikninga.
7. Önnur mál.

1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.

Ragnheiður Bóasdóttir formaður lagði til að Halldór K. Valdimarsson yrði fundarstjóri og Steinar Örn Steinarsson ritari. Tillagan var samþykkt samhljóða.

2. Skýrsla stjórnar um félagsstarfið á liðnu ári.

Formaður flutti skýrslu stjórnar um félagsstarfið á liðnu starfsári og fjallaði m.a. um:

  • Það sem á undan hefur gengið í stjórn félagsins, m.a. breytta skipan stjórnarmanna.
  • Helstu atriði í starfsemi félagsins.
  • Starfsemi þjónustuskrifstofunnar og þá sérfræðiþekkingu og þjónustu sem þar er að finna.

3. Ársreikningur félagsins lagður fram til samþykktar.

Sigurður Þór Baldvinsson gjaldkeri félagsins gerði grein fyrir ársreikningi FHSS fyrir árið 2018. Fram kom að rekstur félagsins væri jákvæður og hagnaður ársins 2018 væri u.þ.b. 20 millj. kr.. Fundarstjóri bar upp ársreikninginn til samþykktar og var hann samþykktur samhljóða.

4. Ákvörðun um félagsgjald og þóknanir fyrir stjórnar – og nefndarstörf.

Steinunn Valdís Óskarsdóttir fjallaði um þær þrjár tillögur stjórnar sem sendar höfðu verið félagsmönnum með fundarboði:

  • Í fyrsta lagi var um að ræða tillögu til lækkunar félagsgjalda út 0,8% af heildarlaunum í 0,7% af heildarlaunum. Umræða átti sér stað í kjölfarið um rökstuðning fyrir þessari tillögu stjórnar og hver eðlilegur rekstrarafgangur stjórnarinnar ætti að vera. Tillagan var samþykkt samhljóða.
  • Í öðru lagi var um að ræða tillögu til breytingar á greiðslum vegna stjórnar- og nefndarstarfa. Annars vegar fól hún í sér að greiðslur til trúnaðarmanna og skoðunarmanna verði 50.000 kr. á ári og fari greiðslur í gegnum launakerfi þjónustuskrifstofu FHSS. Hins vegar fól hún í sér að fyrirkomulag þóknana fyrir sótta fundi á vegum FHSS verði með þeim hætti að þær taki mið af þóknunareinungum Bandalags háskólamanna (BHM) hverju sinni og greiddar verði tvær einingar fyrir hvern fund. Að jafnaði skuli miða við tvær einingar (1 eining = 7.166 kr.) nema lengd funda dragist úr hófi og verði 4 klst. eða lengur, þá bætist við ein viðbótar eining. Almenn umræða átti sér stað í kjölfarið um fyrirkomulag þóknunareininga hjá öðrum stéttarfélögum innan BHM og hvernig samræmi á slíkum greiðslum væri háttað. Tillagan í heild var samþykkt samhljóða.
  • Í þriðja lagi var um að ræða tillögu til fullrar endurskoðunar á reikningum FHSS. Umræða átti sér stað um kostnaðinn við endurskoðun reikninga og hvort það væri nauðsynlegt þar sem félagið hefði yfir að ráða hæfu fólki til að ganga í slík verk fyrir mun minni kostnað. Tillagan var felld með 12 atkvæðum á móti 10.

5. Lagabreytingar.

Þær lagabreytingar sem sendar höfðu verið með fundarboði byggðust á því að tillaga stjórnar um endurskoðun ársreikninga væri samþykkt en þar sem þeirri tillögu var hafnað voru lagabreytingar óþarfar

6. Kosning stjórnar og skoðunarmanna reikninga.

Lokið var kjörtímabili Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur (2017 – 2019) og óskaði Sigurður Þór Baldvinsson, sem kjörinn var varamaður á síðasta aðalfundi en tók síðar sæti í stjórn, eftir því að gegna áfram stöðu varamanns til eins árs. Þeir sem gáfu kost á sér til stjórnarsetu voru Kristján Eiríksson og Ingibjörg Guðmundsdóttir. Jóhanna Norðdahl gaf kost á sér sem varamaður til tveggja ára. Önnur framboð komu ekki fram. Því eru sjálfkjörin annars vegar Kristján Eiríksson og Ingibjörg Guðmundsdóttir í stjórn og hins vegar Jóhanna Norðdahl og Sigurður Þór Baldvinsson sem varamenn.

Stjórn FHSS er því þannig skipuð:
Ragnheiður Bóasdóttir formaður (2018-2020)
Herdís Helga Schopka (2018-2020)
Steinar Örn Steinarsson (2018-2020)
Kristján Eiríksson (2019-2021)
Ingibjörg Guðmundsdóttir (2019-2021)

Varamenn:
Jóhanna Norðdahl (2019-2021)
Sigurður Þór Baldvinsson (2019-2020)

Skoðunarmenn reikninga:
Ólöf Kristjánsdóttir (2019-2021)
Sigurlaug Ýr Gísladóttir (2018-2020)

7. Önnur mál.

  • Rætt var um aðalfund BHM. Formaður upplýsti um að aðalfundur BHM verði haldinn 23. maí nk. og kynnti þær trúnaðarstöður sem lausar eru innan BHM. Félagsmenn voru hvattir til að kynna sér nánar og að mæta á aðalfund ef kostur er.
  • Formaður upplýsti félagsmenn um stöðuna í kjaraviðræðum og fyrirhugaðan fund með samninganefnd ríkisins. Boðað verður til fundar með félagsmönnum til að kynna niðurstöður kjarakönnunar FHSS þann 27. mars 2019 í húsakynnum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.
  • Að lokum tók formaður til máls og þakkaði stjórnarmönnum, trúnaðarmönnum, starfsfólki þjónustuskrifstofu og fleirum fyrir góð störf.

Fundi slitið: 12:45

Scroll to top