Aðalfundur FHSS 2018 – fundargerð

Aðalfundur FHSS 21. mars 2018
Borgartúni 6, 105 Reykjavík.
Fundargerð

Aðalfundur FHSS hófst kl. 11.35 en til hans hafði verið boðað með eftirfarandi dagskrá:

1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
2. Skýrsla stjórnar um félagsstarfið á liðnu starfsári.
3. Ársreikningar félagsins lagðir fram til samþykktar.
4. Lagabreytingar.
5. Ákvörðun um félagsgjald og þóknanir fyrir stjórnar- og nefndarstörf.
6. Kosning stjórnar og skoðunarmanna reikninga.
7. Önnur mál.

1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.

Ragnheiður Bóasdóttir (RB) lagði til að Halldór K. Valdimarsson yrði fundarstjóri og Hildur Jónsdóttir ritari. Tillagan var samþykkt.

2. Skýrsla stjórnar.

Formaður (RB) flutti skýrslu stjórnar um félagsstarfið á liðnu starfsári og fjallaði m.a. um:

  • Nýgerða kjarasamninga, þá vinnu sem lögð var í þá, hvernig þeir voru kynntir og úrslit atkvæðagreiðslu um þá. FHSS setti fram sérkröfu um álagsstundir vegna ferðatíma og var hún eina sérkrafa félags sem náði í gegn í samningum BHM félaganna og þá þannig að hún gildir nú fyrir þau öll.
  • Stefnt hafði verið að endurskoðun stofnanasamnina á haustmánuðum vegna innkomu skrifstofustjóra en ekki gafst ráðrúm til þess og verður kallað eftir samstarfi við kjara- og mannauðssýslu og skrifstofustjóra á vormánuðum 2018.
  • RB lýsti því að undirbúningi að næstu kjarasamningum væri þegar hafinn og væri þá stefnt að samningi til lengri tíma.
  • RB vakti athygli á starfi þjónustuskrifstofunnar og þeirri sérfræðiþekkingu sem þar er að finna. Var nýr starfsmaður kynntur, Júlíana Guðmundsdóttir lögfræðingur, og hún boðin velkomin til starfa.

3. Ársreikningur félagsins lagðir fram til samþykktar.

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (SVÓ) gjaldkeri félagsins gerði grein fyrir ársreikningi FHSS fyrir árið 2017. Fram kom að viðsnúningur hefur orðið í rekstri félagsins, sem hefur nú að fullu greitt skuld sem efnt var til vegna verkfallsaðgerða árið 2015. Fundarstjóri bar upp ársreikninginn til samþykktar og hann var samþykktur samhljóða.

4. Lagabreytingar.

SVÓ lagði til að þeir sem veljist til trúnaðarstarfa fyrir félagið geti starfað í fjögur kjörtímabil, samtals 8 ár, í stað þriggja kjörtímabila eins og nú er. Tillagan var samþykkt samhljóða. Engar aðrar tillögur bárust.

5. Ákvörðun um félagsgjald og þóknanir fyrir stjórnar – og nefndarstörf.

Ólafur Egill Jónsson gerði grein fyrir tillögu stjórnar um lækkun félagsgjalda úr 0,85% af heildarlaunum (sem í gildi hefur verið frá árinu 2015) niður í 0,8%. Sóley Ragnarsdóttir lagði fram tillögu um að félagsgjaldið lækkaði í 0,75%. Talsverðar umræður urðu um tillögurnar og var gengið til atkvæða. Tillagan um 0,75% félagsgjald var felld með 14 atkvæðum gegn 12. Tillögu stjórnar studdu 14 félagsmenn en mótatkvæði voru 8 og var hún því samþykkt.
Engar tillögur komu fram um breytt fyrirkomulag þóknana fyrir stjórnar- og nefndastörf.

6. Kosning stjórnar og skoðunarmanna reikninga.

Lokið var kjörtímabili Ragnheiðar Bóasdóttur formanns og einnig Herdísar Helgu Schopka og Hildar Jónsdóttur (2016-2018) í stjórn og Eiríks Þorláksson í varastjórn. Kjörtímabil Ólafs Egils Jónssonar og Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur er 2017-2019. Allir utan Hildar Jónsdóttur gáfu kost á sér áfram. Steinar Örn Steinarsson sem hefur verið varamaður gaf kost á sér til stjórnarsetu og Sigurður Þór Baldvinsson sem varamaður. Önnur framboð komu ekki fram. Því eru sjálfkjörin Ragnheiður Bóasdóttir í embætti formanns, Herdís Helga Schopka og Steinar Örn Steinarsson í stjórn og Eiríkur Þorláksson og Sigurður Þór Baldvinsson sem varamenn.

Lokið var kjörtímabili Sigurlaugar Ýrar Gísladóttur skoðunarmanns og gaf hún áfram kost á sér. Önnur framboð komu ekki fram.

Stjórn FHSS er því þannig skipuð:
Ragnheiður Bóasdóttir formaður (2018-2020)
Herdís Helga Schopka (2018-2020)
Ólafur Egill Jónsson (2017-2019)
Steinar Örn Steinarsson (2018-2020)
Steinunn Valdís Óskarsdóttir (2017-2019)

Varamenn:
Eiríkur Þorláksson (2018-2020)
Sigurður Þór Baldvinsson (2018-2020)

Skoðunarmenn reikninga:
Ólöf Kristjánsdóttir (2017-2019)
Sigurlaug Ýr Gísladóttir (2018-2020)

7. Önnur mál.

  • Vakin var athygli á að þörf sé að ræða verkfallsrétt FHSS eða skort á honum.
  • Upplýst var að á vettvangi BHM sé unnið að undirbúningi málshöfðunar vegna lífeyrisréttinda.
  • Þá var vakin athygli á misræmi milli ráðuneyta í túlkun á óþægindaálagi vegna ferðatíma og var kallað eftir sjálfstæðu lögfræðiáliti vegna þessa. Fram kom að málssókn fyrir Félagsdómi væri ekki útilokuð.
  • RB tók til máls og þakkaði stjórnarmönnum, trúnaðarmönnum, starfsfólki þjónustuskrifstofu og fleirum fyrir góð störf.

Fundi slitið: 13:20

 

Fylgiskjal: Ársreikningur FHSS fyrir árið 2017 (pdf)

Scroll to top