Stytting vinnuvikunnar

Félög háskólamenntaðra sérfræðinga hafa samið um styttingu vinnuvikunnar fyrir hönd sinna félagsmanna. Styttingin skapar félagsmönnum aukið frelsi til að ráðstafa tíma sínum og stuðlar þannig að bættum lífskjörum. Félögin vilja hvetja félagsmenn og stjórnendur til að skipuleggja styttingu vinnuvikunnar sem fyrst og koma á framfæri gagnlegum upplýsingum um hana. Í samningnum eru tímasetningar um það hvenær þarf að ljúka við útfærslu vinnutímastyttingar. Enn eru nokkrar vikur til stefnu en þann tíma þarf að nýta vel.

Mikilvægar dagsetningar

Samningsaðilar eru sammála um að ná megi fram gagnkvæmum ávinningi starfsfólks og stofnana með betri vinnutíma. Auk styttingar vinnuvikunnar er markmið breytinganna að bæta vinnustaðamenningu og nýtingu vinnutíma án þess að draga úr skilvirkni og gæðum þjónustu.
Mikilvægt er að hafa í huga eftirfarandi dagsetningar en samkvæmt samningum ætti undirbúningur breytinganna þegar vera hafinn.

Stuðnings- og kynningarefni

Á vefnum betrivinnutími er stuðnings- og kynningarefni þar sem sjá má yfirlit yfir innleiðingarferlið og sýndar eru mismunandi útfærslur á styttingu vinnuvikunnar auk þess sem algengum spurningum er svarað.
Sjálf útfærslan á styttingu vinnutíma verður með ólíkum hætti eftir afmörkuðum starfseiningum og því hvort fólk vinnur í hefðbundinni dagvinnu ( Stytting vinnuvikunnar fyrir dagvinnufólk) eða vaktavinnu ( Stytting vinnuvikunnar fyrir vaktavinnufólk). Þá er að finna sérstakan vaktareikni sem gefur vaktavinnufólki kost á að fá glögga mynd af áhrifum kerfisbreytinga í vaktavinnu, sem taka gildi 1. maí 2021, á vinnumagn og laun útfrá fyrirliggjandi forsendum hvers og eins.

Vinnulag við styttingu vinnuvikunnar

Það er nauðsynlegt að hafa í huga að viðræður um styttingu vinnuvikunnar eru á milli starfsfólks og stjórnenda á hverri stofnun fyrir sig. Þar ræða  starfsmenn og stjórnendur  sameiginlega um hvaða vinnutímafyrirkomulag henti best. Í kjölfarið er lögð fram tillaga sem starfsmenn greiða atkvæði um. Niðurstaðan er send til hlutaðeigandi ráðuneytis til staðfestingar.
Breytingar á skipulagi vinnutíma eiga að öðru óbreyttu ekki að leiða til breytinga á launum eða launakostnaði stofnunar. Jafnframt er forsenda breytinganna að starfsemi stofnunar raskist ekki og að opinber þjónusta sé af sömu eða betri gæðum en áður. Með undirritun samnings felst enn fremur gagnkvæm viðurkenning samningsaðila um að stjórnendum og starfsmönnum sé treyst til að vinna að styttingu vinnuvikunnar af heilindum og eftir þeim formerkjum sem finna má í kjarasamningi.

Námskeið

Ráðgert er að halda námskeið fyrir trúnaðarmenn aðildarfélaga þar sem farið verður yfir þau skref sem þarf að taka á hverjum vinnustað fyrir sig. Námskeiðið verður auglýst síðar.

Nánari upplýsingar veitir starfsfólk Þjónustuskrifstofu FHS – sími: 595 5165 – anna@bhm.is

Virðingarfyllst,
Alda Hrönn Jóhannsdóttir, formaður Stéttarfélags lögfræðinga
Bragi Skúlason, formaður Fræðagarðs
Hugrún R. Hjaltadóttir, formaður Félags íslenskra félagsvísindamanna
Kristjana J. Hjörvar, formaður Stéttarfélags bókasafns- og upplýsingafræðinga
Ragnheiður Bóasdóttir, formaður Félags háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins

Scroll to top