Samkomulag um framlengingu á kjarasamningi FHSS og ríkisins kynnt

Samkomulag um framlengingu á kjarasamningi FHSS og ríkisins var undirritað mánudaginn 5. febrúar. Samkomulagið er afturvirkt til þess tíma er samningar losnuðu 1. september 2017 og gildir einungis í rétt rúmt ár, til 1. mars 2019. Í samkomulaginu er samið um hækkun launa um 2,21% frá og með 1. september 2017 og um 2,00% frá og með 1. júní 2018. Að auki verður greidd eingreiðsla að upphæð 70,000 kr., miðað við fullt starf, þann 1. febrúar 2019.  Fjórtán af þeim 17 stéttarfélögum innan BHM sem fengu á sig gerðardóm í kjölfar verkfallsins 2016 hafa þegar undirritað samkomulag sem er efnislega samhljóða því samkomulagi sem FHSS kynnir nú fyrir félögum sínum. Hin þrjú félögin hafa vísað sínum málum til ríkissáttasemjara.

Föstudaginn 9. febrúar var haldinn kynningarfundur fyrir félaga í FHSS um efni samkomulagsins. Fundurinn var ágætlega sóttur og spunnust töluverðar umræður á fundinum. Eftir fundinn var sendur tölvupóstur á alla félaga í FHSS þar sem þeim var gefinn kostur á að kynna sér texta samkomulagsins og kjósa um það. Tölvupósturinn var sendur frá Maskínu sem sér um kosninguna fyrir hönd FHSS. Kosningin verður opin til föstudagsins 16. febrúar kl. 12:00. Eru félagar hvattir til að kjósa.

Scroll to top